Tuesday, February 24, 2004

Vá, mín komin aftur.
Módemið okkar dó! Þess vegna hefur verið þögn á síðunni minni í allmarga daga. Ég veit ekki af hverju eða úr hverju það dó, en einn vondan veðurdag var barasta ekkert hægt að fara á netið. Ég veit að maðurinn minn hugsar eflaust um þennan dauðdaga módemsins, að þetta hafi bara verið sama tölvuvesenið og virðist alltaf vera með mig. Það frjósa flest allar tölvur sem ég nota og allur tölvubúnaður virkar ekki ef ég er að nota hann......stórfurðulegt, þar sem ég er nú ekkert það vitlaus varðandi tölvur og notkun þeirra.
en ég er svoooo fegin að nýtt módem er komið á heimilið. Maðurinn minn gerðist meir að segja svo góður og fór að finna módem fyrir mig í Keflavík. Ekki það að þau vaxi þar á trjánum, en mætti halda. Hann á svo góðan mág þar sem léði okkur sitt módem.
Og eitt.....auðvitað tókst módeminu að bila þegar ég var veik heima, í viku! Þannig að ég komst ekkert á netið í mínum veikindum, til þess að stytta mér stundir og afla mér fróðleiks (um fallega, fræga og ríka fólkið)
En núna er allir á heimilinu heilir heilsu, ég og módemið mitt þar á meðal.........

Wednesday, February 11, 2004

Íslensk kökuboð, þau eru það besta í heimi.
Ég er ekki að djóka, við ættum að keppa í þessu. Á þessu sviði er barasta engin samkeppni, get ég sagt ykkur. Afmæli, fermingar, brúðkaup og skýrnir, þetta eru tímamót, steypt í majones og rjómaskrauti. Mér finnst þetta æðislegt, fara úr afmæli(eins og það sem ég er að koma úr núna, hjá tengdó), pakksödd af frábærum marenstertum og rækjusalatsbrauðtertum, svo södd að ég er eiginlega of södd. Og það er eiginlega sama í hvaða tertuteiti maður fer í, það er alltaf búið að útbúa og baka fyrir allavega tvöfallt þann hóp sem boðið var, svona til vonar og vara, slæmt ef fleiri koma og ekki er til nóg handa öllum.
Reyndar hef ég ekkert á móti afgöngum, sérstaklega ekki af þessum toga....
En stundum finnst mér þetta fara út í öfgar. Eins og eitt sinn, er góð hljómsveit sem ég spilaði eitt sinn með, hélt upp á afmæli sitt og bauð meðlimum í veislu þá var boðið upp á þessar líka geggjuðu brauðtertur af öllum stærðum og gerðum og BJÓR með. Hvað er rangt við þessa mynd? Jú, eins og ég komst að, þá fara bjór og majonesbrauðtertur ekki vel saman.........sérstaklega ekki mikið af bjór og majonesbrauðtertur!
Ég segi bara að lokum, ég vona það að mér takist einhverntíman að mastera þessa list að búa til hina fullkomnu hnallþóru og vel girnilega majonesbrauðtertu, og senda alla þá sem þora í mín kökuboð, vel sadda og sæla eins og ég er núna.

Monday, February 09, 2004

Jæja, er smá sár í sneplinum eftir föstudagskvöldið, það var nú þokkalega vel tekið á því þá. Alltaf gaman af þessu samt.
Mætingin í teitið var nú heldur dræm fyrri hluta kvölds, en svo rættist úr þessu seint og síðar meir. Og að venju var skammtað vel af veigum og allskonar öðru góðgæti og meðlæti. Svo þegar búið að innbyrgja gott magn af áfenginu, hófst munnræpuflóðið mikla. Allir höfðu skoðanir, á öllu. Það var spjallað um Svarta Lista Sukovsky´s og Helgu Ingólfs. Listaháskólann og tónlistarlíf í landinu, baslið sem við nýútskrifuðu tónlistarmenn þurfum að standa í. Ekkert smááá háfleygar umræður. Stórskemmtilegt þrátt fyrir það.
Næsti dagur var ekki eins ljúfur, byrjaði reyndar vel, svo lengi sem ég hreyfði mig ekki mikið. Svo komu foreldrar mínir og sátu hérna yfir mér og hlóu, skil þau alveg, þau sögðust hafa verið að sjá nýja liti, og það bara á andlitinu á mér. Svo skutluðu þau mér í RVK til að sækja bílinn minn, sem ég skildi eftir kvöldið áður. Smá tremmi á leiðinni inneftir. Þegar ég steig inn í minn eigin bíl, fann ég að þetta var ekki alveg að ganga svo að ég þurfti að skilja soldið af magainnihaldi mínu eftir á bílastæðinu. Ekkert mikið, en jeez hvað mér leið miklu betur á eftir og ég var vel ökufær eftir þetta.

Svo kom maðurinn heim í gærkvöldi, frá Milanó. Það var víst ekkert smááfalleg borg, væri alveg til í að kíkja þangað einhverntíman. Alltaf gott að fá hann heim, segi ekki annað en það að ég svaf ekkert smááá vel í nótt. Það er svo gott að hafa hann þarna hinu megin í rúminu, maður er bara orðin svo vanur því að geta rúllað sér yfir þegar manni er orðið kalt...... Já ég er húkt á manninum mínum.

Friday, February 06, 2004

hei vá, það kom bara strax föstudagur. Það þarf að vara mig við þegar svona gerist....þegar vikan ákveður bara að taka kipp og sleppa úr nokkrum dögum.
Tónleikarnir gengu þokkalega, held bara að við fáum fína dóma fyrir þá, svo er teitið í kvöld(eftir tónleika teitið sem er vanalega strax eftir tónleikana en er núna, vegna þess að í dag er föstudagur en ekki þá því þá var bara þriðjudagur), held bara að við fáum fína dóma fyrir það líka. Er að hita upp fyrir það, sötra bjór og láta mig dreyma um að einhver eldi handa mér humarpasta og klikkað hvítlauksbrauð. Sjeensinn að það gerist einhverntíman, þann dag mun ég sjúga feitt hross og vera bara ánægð með það. Ætli ég verði ekki bara að stíga á fót og gera það sjálf.
hm, Þorrabjór frá Egils...jú, þetta er bara þokkalegur mjöður.
Það var soldið skemmtilegt að vera að spila aftur með gömlum félögum, þer eru flestir bara þokkalega fínir félagar. Það er hópur af liðinu samt núna úti að læra og þannig að hópurinn eins og hann var er bara ekki eins. En engu að síður, gaman að hitta liðir, gamla tónó í rvík liðið. Í góðu nostalgíukasti sakna ég ykkar verulega, þessa hóps sem var og hét þegar var verið að stofna Blásarasveit Reykjavíkur, stollt af ykkur krakkar......snuftsnuft.
jæja, komin tími að sötra meiri mjöð og renna á snepilinn ásamt góðum vinum. Skál

Monday, February 02, 2004

Mánudagurinn að verða búinn, sem betur fer, þá fer að verða styttra í að það komi aftur helgi. Tónleikarnir á morgun, það verður spennandi að heyra hvernig það kemur út. Vonandi vel, er sannfærð um að ég hafi verið að gera minn part þokkalega vel. Það er aftur á móti spurning um hvort ég hafi verið að gera minn part vel varðandi kennslu á einum nemanda, sem er greinilega að hóta því að hætta, í gegn um foreldra sína. Fékk upphringingu í kvöld frá áhyggjufullu foreldri varðandi unglingaungann sinn. Hann er ósáttur og var að láta það í ljós heima hjá sér. Ég er búin að hafa áhyggjur af honum í allan vetur, vegna stæla og þess háttar. Við eigum viðtal á morgun, það verður spennandi að hera hvernig gengur með það, I'll keep you posted...ahahahaaaa

Sunday, February 01, 2004

jæja, helgin að verða búin. Samt ekki fyrr en ég er búin að fara á æfingu. Við skötuhjúin hér erum að spila núna þesa dagana með Blásarasveit Reykjavíkur. Það eru tónleikar á þriðjudag á Myrkum Músíkdögum. Þetta verða afar áhugaverðir tónleikar, meðal annars sem við spilum er flottur konsert eftir Stravinsky.
Annars get ég ekki sagt að ég sé mánudagsglöð manneskja, er í stórum hópi þeirra sem að óska þess að helgin sé einum degi lengri. Mánudagar eru samt ekki slæmir hjá mér, ég er með fína nemendur á mánudögum og hef minn vinnudag ekki fyrr en eftir hádegi (þó svo að ég vildi svo heitt vera að vinna frekar frá átta til fjögur-fimm) maður á samt ekki að vera að kvarta neitt, setja upp Pollýönnugleraugun og rölta um með bjartsýna og fallega sýn á daglegt líf. Maður er þó alla vega með vinnu til þess að fara til, til þess að geta tuðað um þegar maður er búinn í henni og líka til þess að borga þessa reikninga sem að gubbast inn um lúguna og maður tuðar um einnig.

Mikið búin að vera með komplexa þessa dagana. Aðallega út af göfum, eða því að skipta gjöfum. Þannig er mál með vexti að við maðurinn fengum innflutningsgjafir frá mágkonu minni og manninum hennar. Kastara í loftið í stofunni hjá okkur. Kastararnir voru sérvaldir fyrir okkur, út frá því ljósi sem við áttum fyrir og vorum búin að setja upp í íbúðinni. Kastararnir líktust jú því ljósi sem var uppi, en að mér fannst, engan vegin passa inn í íbúðina. Þegar við fengum gjöfina, fann ég mig knúna að dásama ljósin og allt það, eiginlega allt annað en að segja að mér fyndust þau ekki fín í íbúðina.... En svo loksins eftir svona viku eftir að við fengum þá, tókst mér að gubba því upp við manninn minn að mér fyndust þau ekki passa. Þannig að við skiptum þeim, og nú vorum við að sýna mágkonu minni það sem við fengum í staðin og ég enn með samviskubit að hafa skipt þeim. Fáránlegt ég veit það og ekki bara það heldur líka að geta ekki sagt frá því að mér fyndust ljósin bara alls ekki passa, hvern myndi það nú særa....???
Já ég er illi, þá er það komið á blað...
Við fengum fín ljós í staðin, þau passa miklu betur.
Og hvaða ályktun getum við dregið af þessari sögu minni......jú, ekki vera illar því það ríma svo mörg ljót orð við það, eins og tillar og "Thriller"(Michael Jackson og allt það mess).