Tuesday, April 24, 2007

Enn heyrast hamarshöggin frá Robinace

Jamm, framkvæmdagleðin alveg að fara með okkur hjónin.

Við fengum ansi skemmtilegt SMS á laugardagsmorgun. Það var frá gardínumanninum, gardínurnar í stofuna voru tilbúnar. Auðvitað var brunað strax, eftir brönsjinn, og þær sóttar, í leiðinni voru einnig keypt útiljós á slotið. Gardínunum var hent upp og handlagni eiginmannsins skein í gegn um handbragðið.

Á sunnudegi var haldið áfram að bora og negla og henda upp á geymsluloftið í bílskúrnum. Að þessu sinni var byrjað á því að lakka undir borðplötuna í eldhúsinu þar sem uppþvottavélin stendur. Hún er að fara illa á hita og rakaskemmdum sem verður að stöðva strax. Eftir þessa fínu lakkvímu var farið í að setja saman skápinn sem var keyptur í annað herbergið niðri. Þetta er sérsmíðaður skápur og þar af leiðandi fylgdu honum engar leiðbeiningar um það hvernig ætti að setja hann saman, en það tókst, á endanum.... Þegar við vorum búin að því föttuðum við það að við þurfum að smíða sökkul undir skápinn áður en honum er hent upp og það er eitthvað sem við kunnum ekkert að gera. Þannig að pabbi var pumpaður yfir kvöldmat um kvöldið.

Dagur þrjú, kæri jóli....eða sáli. Andrés kom sinni heitt elskuðu á óvart með því að vera búinn að henda upp fleiri hillum í geymsluna og hönkum fyrir kústa og var í miðjum klíðum að klára að henda upp á bílskúrsloftið fleira drasli. Bráðum verður sko hægt að setja bílinn inn í skúrinn. Það var líka klárað að lakka hjá uppþvottavélinni, ákveðið var að kalla þetta gott eftir 6 umferðir af Úberlakki. Þrátt fyrir það að vera búin að kaupa allt í sökkulgerð, ákváðum við að fresta því þar sem við vorum bæði nokkuð slöpp og skrýtin....skrýtnari en vanalega.

Þannig var helgin hjá okkur. Þrusumikið stuð og púl. Ef ykkur vantar ráðleggingar varðandi lökkun, sökkulgerð, gardínuupphengingar, borun í vegg eða hvernig best sé að ná málningu af, þá hafið þið bara samband!

Wednesday, April 11, 2007

Þetta er allt að koma....

Jæja, það er von á gardínumanninnum á morgun. Þá fer þessum framkvæmdum nú líka að ljúka. Gardínumaðurinn kemur og mælir okkur út og leysir allar okkar gardínuþarfir, sem eru miklar trúðu mér. Ef við förum ekki að koma gluggunum í stofunni á hreint, steikjum við píanóið okkar alveg, sem er ekki gott....er það, nógu er það nú orðið falskt af flutningunum.
Heimilið er allt að komast í lag, það er búið að hengja upp ljósin, þannig að maður getur gengið um húsið og séð hvert maður er að fara, nema í bílskúrnum.. Það er búið að taka karatespark í gegn um rúðu í útidyrahurðinni, til þess að koma þar fyrir bréfalúgunni sem að Svavar, góði vin, smíðaði handa okkur, það voru bæði skemmtilegar og furðulegar aðfarir.
Við erum búin að hengja upp myndir á veggina, sem gera heimilið loksins að mínu...eh sorry "okkar".

Og það lítur allt út fyrir það að það styttist í bílskúrshurðaopnarann.....tíhíhíhííí