Monday, April 26, 2004

Indverskur matur. Þvílík snilld þar á ferð.
Síðastliðna daga hefur ekki mikið annað komist fyrir á lystarmatseðli mínum. Var með góða vini í mat(ekki í matinn) á föstudaginn var, og bauð þeim upp á indverska rétti sem ég var búin að finna á netinu og nóta bene elda í nánast tvo daga. Og viti menn, þetta var bara þrusu gott á bragðið, meiraðsegja svo gott að þegar ég er að hugsa um þetta núna, þá fæ ég vatn í munninn. Þarf einmitt að fara að finna fleiri fórnarlömb til þess að elda fyrir og prófa nýja indverska rétti á.
Það er algjör himnasæla hvað þessir Indverjar eru búnir að finna upp á með notkun krydda og jurta. Algjört bragðhimnaríki. Ég gæti alveg hugsað mér að flytja þangað og fá svona á hverjum degi!!!!!!!!

Thursday, April 15, 2004

Þá er páskafríið búið. Það var nú leitt. Ég gerði mitt besta í því að gera ekki neitt í fríinu og held bara að mér hafi tekist ágætlega til. Jú, ég gerði að sjálfsögðu eitthvað, svaf og borðaði og horfði á sjónvarpið og þess á milli skrapp ég á Gústavsberginn til þess að gera það sem gera þarf þar. Ég lýg nú pínulítið að hafa ekki gert neitt, ég lærði nýtt spil í fríinu. Risk. Stórskemmtilegt spil það, alheimsyfirráð eða dauði. Gengur út á það að sanka að sér herjum og löndum og klára verkefni sem maður dregur sér í byrjun spils. Mér gekk svona þokkalega í þessu spili, skaut sjálfa mig þó nokkrum sinnum í fótinn eins og gengur og gerist með mig en hafði þó af þessu öll allmikið gaman. Eftir þrjú heil kvöld í Risk fór ég að skilja hvað er að reka Bush áfram í þessum stríðsrekstri sínum, hann er bara í Risk, með örlítið stærra leikborð og heri í raunstærð. Hann er bara orðin húkkt á þessu eins og ég.
Núna er planið að fara ferð og finna sér spil. Kaupa kannski útgáfu sem á að gerast í geimnum, eða eitthvað annað spennandi. Þá vil ég endilega sjá einhverja góða og skemmtilega koma í heimsókn til mín og kallsins og spila við okkur........... Svo getum við líka spilað eitthvað annað ef þið eruð ekki í stuði að vera alltaf að drepa mann og annan......!?!?!?!

Monday, April 05, 2004

jessssssss
Rétt'upp hönd sem finnst páskafrí skemmtilegt!!!! Mér líka. Nú fær maður nokkra extra daga til þess að bora í nefið og leggja sig fram við það.
Ég er ekki búin að plana mikið eða merkilegt í fríinu. Jú kannski að klippa trén í garðinum mínum og svoleiðis, já maður er kominn með garð og þar af leiðandi tré sem maður þarf að klippa, er búin að bera á garðhúsgögnin þannig að maður er kannski ekki búin að vera borandi í nefið alla daga allan daginn.
Og vorið er komið og grundirnar gróa. Andrés er kominn með sólarlanda fiðringinn eins og hann fær ár hvert. Þá liggur hann á netinu og leitar að besta tilboðinu til þess að liggja á strönd einhverstaðar og bora í nefið þar. Sólarstrandir eru ekki mitt! Ég er ekki mikið þannig, þolinmæði mín í legur á ströndum er svona að meðaltali svona um 10 mín. Kannski korter. Það er heldur ekki neitt gaman fyrir manneskju eins og mig að liggja í sólbaði, þar sem ég verð ekki brún heldur svona ólífuhálfgræn á litin. Ekki neitt sérlega viðkunnalegur litur það. Ég er meira svona borgarferða dama. Skrölta og skoða fólk og mannlif og menninguna. Sjúga inn stemminguna ásamt góðum bjór eða víni staðarins.
Þetta verður skemmtilegt sumar, ég finn það á mér.... Nú líður mér vel að vera komin heim.