Thursday, July 24, 2008

Bréf til Hetju

Ég vildi bara þakka þér fyrir gærkvöldið. Það var yndislegt að ná þér á góðum tíma og fá einnig þessi fallegu orð frá þér. Ég vona að tíminn þinn heima hafi verið ánægjulegur hingað til og við skulum óska þess að hann verði einhvern tíma í viðbót.
Mín vakt er búin í bili, Þóra og Númi munu verða hjá ykkur þangað til ég kem aftur. Og ég hlakka til þess að koma aftur, fá minn skammt af knúsi og útúrsnúningum og gríni.
Þú stendur þig vel og vonandi náum við að halda í við þig og stýra þér sársaukalítið inn í næstu daga.

Þín elskandi dóttir,
Helga

Wednesday, July 16, 2008

Bréf til Hetju

Í dag var frábær dagur. Það létti okkur öllum lund að sjá að þrátt fyrir slæmar fréttir þá varst þú ekki alveg tilbúinn að eyða góðu orkunni í leiðindi. Það eru alltaf góðar fréttir þegar þú ert í stuði til þess að snúa út úr og skjóta á okkur hin og þó svo að orðaforðinn sé ekki alveg bestur þá tekst þér enn að skjóta í mark....
Heimkoman verður vonandi eins og þig hefur dreymt um og við óskum þess öll að þú getir verið heima eins lengi og hægt er. Óli er búinn að gera aðgengið eins og best verður á kosið og verið er að klára restina svo að þetta verði allt þægilegt.

kv. Helga

Saturday, July 12, 2008

Bréf til Hetju

Í dag er stór dagur. Hamingjan fólgin í því að ná að ganga án hjálpar í smá stund er ómetanleg. Eitthvað sem hefur ekki verið hægt í svo langan tíma.
Takmarkið sem er sett er að komast út (af spítalanum á morgun, í raun kannski á þriðjudag-miðvikudag). Og að fara í útilegu..... Já, útilegu.

Já það yrði sigur að fá hann heim, það er satt. Hann er orðinn drullu þreyttur á því að vera þarna fastur inni, sérstaklega þegar það er svona gott veður. Það fer vonandi að leysast.

Á morgun á ég von á því að það verði ennþá stærri dagur. Kannski liggur hann í því að það er orka fram yfir kl 3 eða betri svörun í hægri hlið. Ég bið ekki um meira.