Monday, March 26, 2007

Brekkupúl

Jæja, þá er fyrsta brekkupúlinu frá Þrastarásinum lokið. Það er mjög gott á allan hátt að búa svona hátt. Það þýðir að allir hlaupatúrar enda með massa brekkupúli. Við fjölskyldan fórum í einn slíkan túr í dag, og jú, ferðin niður brekkuna var góð og svo ekkert mál litli hringurinn sem við fórum en svooo, eins gott að hundurinn var bundinn við mig, því hún gat dregið mig upp byrjunina af brekkunum. En þegar ljósastaurarnir voru farnir að vekja of mikla athygli hjá hundinum var það ég sem þurfti að draga hana upp brekkurnar......sem var ekki beint að hjálpa.
En þetta var geggjað, nú þarf maður bara að fara að drulla sér í form og massa allar þessar Ásfjallsbrekkur!!!!!!! Og hana nú - sagði hænan!

Friday, March 23, 2007

Nýja heimilið mitt

Aaaa.... þá er maraþoninu loks að ljúka. Búið að fá húsið afhent, mála, flytja, þrífa Háabergið, afhenda Háabergið, skrúfa saman flest öll húsgögnin sem voru keypt, pakka upp úr 20% af kössunum, tengja þvottavél, hengja upp 20% ljósum sem þarf að hengja upp og sofa einu sinni út!
Það sem hefur verið vanrækt: vinnan, sjónvarpið, heilsusamlegt líferni og hundurinn. Hundurinn er ekki alveg að meika okkur þessa dagana, hún er ansi skeptísk á alla þessa kassa, þennan skrýtna garð og allt þetta pláss í húsinu. Sem dæmi vill hún helst ekkert vera að fara niður á neðri hæðina......en það kemur allt saman.
Sjálf verð ég að segja að ég er nánast eins og hundurinn, þessir kassar eru alveg að fara að verða nóg og allt þetta pláss er líka eitthvað sem ég á eftir að venjast. En það er tvennt sem eru helstu breytingarnar í mínum huga, það er hversu hljótt er í húsinu, það er bara eins og við séum ein í heiminum, og svo eru það öll þessi nýju húsgögn sem gera það að verkum að ég mér líður eins og ég sé ekki heima hjá mér.
Svo þarf ég líka að passa mig á því að keyra ekki heim á gamla staðinn, þegar maður er þreyttur og utan við sig......það hefur gerst!!!

Friday, March 09, 2007

5 dagar

Já, talnaglöggir sjá að það er nú ekki alveg að passa við síðustu færslu, en óvænt ánægja skoppaði inn í líf okkar í gærkvöldi.
Við fengum að kíkja inn í Þrastarásinn í gærkvöldi, til þess að mæla fyrir sófa í sjónvarpsholið. Við vorum búin að hafa miklar áhyggjur af því að holið væri lítið og því hefðum við ekki færi á að kaupa hvaða sófa sem er, eftir nokkra rúnta í húsgagnaverslanir þá ákváðum við að þora ekki að gera neitt nema vera búin að mæla út fyrir honum fyrst. við hringjum í fólkið og þau voru svo næs að hleypa okkur inn í gærkvöldi með málbandið og viti menn, sjónvarpsholið er miklu stærra en það var í minningu okkar. Það var líka gott að fá að fara aftur inn í húsið, þar sem að alls konar efasemdir hafa verið að læðast upp að manni, bæði vegna þess að þetta er PENINGUR og líka af því að þetta gerðist svo skyndilega.
En eftir að hafa farið aftur, þá er ég enn sannfærðari um það að við gerðum góð kaup. Það var líka gott, því maður sá aðeins betur hvað við þurfum að kaupa fyrir flutning, ljós og þessháttar, og svo uppgötvuðum við það að það er nudd í pottinum......það var sko slefað alla leiðina aftur á Háabergið, eins gott að það var ekki löng leið! :)
En já, óvænta ánægjan er sú að við fáum afhent á miðvikudagskvöldið!! Degi fyrr, eða hálfum degi fyrir þá sem eru bókstafstrúar. En JIBBÍ!