Friday, August 18, 2006

Þýskaland, Austurríki, Sviss, Lichtenstein og Ítalía....á 10 dögum

Jamm, þá hefst Utanlandsferðasaga númer þrjú!!!
Við byruðum á því að heimsækja Ástu og Brynjar í Munchen. Það var æðislegt að sjá þau aftur og leitt að geta bara verið með þeim í stuttan tíma þetta skiptið, það er verið í því að vinna að skutlast aftur út til þeirra. En...í Munchen var farið í góðan göngutúr um miðbæinn, AugustinerBrauerei heimsótt og nokkrum þungum krúsum lift þar. Þrátt fyrir að hafa stútað nokkrum fljótandi brauðsneiðum þá urðum við að heimsækja Úber sushistað sem að þau hjónakornin vissu um. Það var einn beeesti sushi staður sem ég hef farið á og það sem gerði hann svona geggjaðan var að hann er "all you can eat"!!! Morguninn eftir var vaknað snemma til þess að versla og keyra svo af stað og nota bene....það var verslað!!


Keyrslan upp í svissnesku Alpana gekk vel. Náttúrufegurðin stórbrotin og hjónabandið óbrotið þrátt fyrir smá taugatitring varðandi kortalestur og þjóðvegasteypu á landamærum Þýskalands, Austurríkis og Sviss. Þetta var þá annað skiptið í ferðinni þar sem þolinmæði var testuð, í fyrra skiptið reyndum við að keyra um miðborg Munchen, til þess að komast á hótelið okkar, og við kortalaus...guði sé lof fyrir það að Brynjar er brilliant að leiðbeina í gegn um síma.

Námskeiðið gekk vel og ég fekk að spila heilan helling og fekk einnig góða tilsögn sem nýtist vel. Ég saknaði reyndar hennar Ástu þar sem meðleikarinn var ekki upp á marga fiska(eiginlega bara fiskalaus..), en ég fekk mikið út úr þessu. Bærinn sem við gistum í var geggjaður, alveg ótrúlega fallegur. Hann er staðsettur í 2000m hæð, algert æfintýri að komast upp í hann, það gerir þú annað hvort með því að keyra ótrúlegan veg(sem er bara opin umferð annað hvort bara upp, eða bara niður þar sem hann er svo mjór) eða með kláfi.

Og hvað er með allar þessar beljur???? Og með þetta líka stórar bjöllur á sér! Mér leið bara eins og Heidi, nema hvað ég er ekki með neinar fléttur.
Eftir námskeiðið var klifrað niður alpatindana og keyrt í gegnum Gotthardgöngin til Ítalíu. Ótrúlegri göng hef ég ekki farið, 18km!!! Á Ítalíu var byrjað á Milanó. Afskaplega sjarmerandi borg og kannski enn meira sjarmerandi þar sem hitinn var 27C og borgarbúar allir farnir í frí út úr borginni. Duomo var líka pökkuð inn vegna viðgerðar, en hún var pökkuð inn í Madonnu/H&M auglýsingu...???? En við Andrés áttum samt svo sannarlega rómantískan tíma í Mílanó. Skoðuðum kastalann og söfnin þar inni og settumst svo á bekk við kastalann, með freyðivín og tvö glös, og drukkum og horfðum á mannlífið. Við áttum reyndar svipað kvöld kvöldinu áður, þar sem við vorum með stórkostlega Baraolo rauðvínsflösku og rómantískan harmonikkuleikara í för.

Eftir Milanó var skellt sér til Gardavatns, nánar tiltekið Sirmione. Og ég segi bara, ef þið ætlið til Gardavatns, þá gistið þið hér! Þar hittum við fyrir Ingigerði og Sigtrygg, vinafólk okkar. Þau höfðu komið til bæjarins tveimur dögum áður og voru því búin að skanna nágreinnið. Við Andrés vorum því mjög heppin því við fengum afar góða útlistingu á nágrenninu á meðan við hjóluðum(jamm við leigðum okkur hjól) um bæinn. Við Garda var nóg að gerast. Rómverskar rústir skoðaðar(af mörghundruð ára gömlum sumarbústöðum!?!??!!), bátur leigður og siglt um vatnið, haldið mót í minigolfi og borðtennis(ég þokkalega rústaði þeim í minigolfinu)góð vín drukkin og áfengar sveskjur borðaðar......í morgunmat?!? Það sem mér fannst reyndar standa uppúr var ferðin til Verona. Verona borg er falleg og það virðist sem að aðalaðdráttarafl hennar á sumrin sér Arena di Verona. Þar vorum við búin að panta okkur miða á uppfærslu af Aidu í leikstjórn Franco Zefferelli. Við mættum snemma til þess að skoða borgina en gerðum ekki mikið annað en að fá okkur kvöldmat, kaupa okkur rauðvín til þess að fara með inn á leikvanginn og svo horfa á þessa stórkostlegu sýningu. Söngvararnir voru ótrúlega góðir, sviðsmyndin geggjuð og ég verð með króníska gæsahúð það sem eftir er þegar ég hugsa til þessa alls. Það þurfti reyndar að stöðva sýninguna í loka fjórða þáttar þar sem hann brast á með þrumum, eldingum og rigningu. Það var ótrúlegt að sjá hljómsveitina hlaupa þegar þau fundu fyrstu dropana, svona snöggan og góðan flótta mætti hvaða slökkviliðsmaður vera stolltur af. Hér erum við Andrés á Arenunni.


Á þriðjudaginn brunuðum við Andrés svo norður til Munchen til þess að fljúga heim, sæl eftir stórbrotna ferð.