Wednesday, November 28, 2007

New York, New York

Ég fann það síðasta haustið 2006, að það er alveg nauðsynlegt að hafa eitthvað til þess að hlakka til. Einhverja stóra gulrót til þess að hugsa til þegar manni finnst eins og erfiður dagur ætli aldrei að enda.
Haustið 2006 pöntuðum við ferðina til Hong Kong og eftirvæntingin fleytti manni áfram á bleiku skýi fram að brottför. Upplifunin af ferðinni gerði veturinn og vorið einnig yndislegt.

Ég fann í haust að ég saknaði þessa æsings alls. Var meir að segja farin að tékka hvort að maður gæti ekki bara stokkið eitthvað í burtu núna um jólin. En ég vil gjarnan eyða þessum jólum á Fróni, þetta sinnið, útiloka ekki að einhvern tíman í framtíðinni verði maður á suðurhveli eða að rölta Kínamúrinn á Jóladag.
Þannig að þegar ég fékk gjöf um daginn, ferð til New York, þá lifnaði sko aldeilis yfir hjarta mínu.
Við fórum síðast til New York í brúðkaupsferðina og sú ferð var yndisleg! Mér finnst þessi borg himnesk og væri alveg til í að hanga þarna sem mest.
Í þetta skiptið ætlum við að vera í viku, heila viku!