
Nett panikk skreið yfir hópinn þar sem þetta þýddi að við næðum ekki áramótum heima. Þar sem við áttum ekki lestarferð til baka til Hong Kong fyrr en kl. 20:20 höfðum við hellings tíma til þess að velta þessu fyrir okkur. Gulla og Beta voru þær einu sem voru með gemsa sem virtust virka í Kína, þannig að þeir voru nýttir til hins ýtrasta en án árangurs. Í lestinni var sæst á eina lausn á málunum. OasisHongKong var með flug þetta kvöld á sama tíma og okkar, hálf tvö. Planið var.....að strax og við kæmumst til Hong Kong kl 22:20, myndu Andrés og Grétar bruna út á flugvöll og koma okkur í flug heim um kvöldið. Við hin bruna á hótelið og pakka í kvelli og koma okkur út á flugvöll. Ég get svarið það, að ég held að aldrei hafi svona hröð pökkun farið fram, hvergi í heiminum, ónei!! Eftir nokkuð af hlaupum upp og niður í hótelinu til að faxa upplýsingum og tékka út, var maður orðinn sveittur og sexí, en enginn var tíminn til að skipta um föt..... Út á völl fórum við og náðum að tékka okkur inn saman. Sveitt og sæl, þrátt fyrir smá leiða að vera að fara frá Hong Kong degi fyrr, sátum við í Transit, enn á ný. Við myndum ná fyrir gamlárskvöld alla vega, þó svo að enginn hafi þorað að segja það, hrædd um að kalla yfir okkur meira vesen.
Gatwick tók á móti okkur á ný og að þessu sinni var enginn asi á neinum. Við þurftum að finna hótel þar sem við áttum ekki flug þaðan fyrr en á morgun, Hótel Copthorne varð fyrir barðinu á okkur og undum við okkur þar í góðu yfirlæti og slökuðum á eftir æsing gærdagsins.
Heimflugið var rólegt en ánægjulegt og við öll ansi ánægð yfir því að ná heim til þess að vera með fjölskyldunum á gamlárskvöld. En Hong Kong og Kína var mikil upplifun og ég hlakka til þess að fara þangað aftur.....í það sinnið kannski aðeins norðar, Peking og Kínamúrinn kannski.
