Thursday, July 19, 2007

North Sea Jazz 2007

Föstudaginn 13. skelltum við hjónin okkur á gamlar heimaslóðir, til Rotterdam.
Aðalástæða ferðar var að drekkja okkur í djassi á North Sea Jazz festival
sem er ein stærsta djasshátíð í heimi. Hátíðin hefur verið haldin í Den Haag en undanfarin ár hefur hún stækkað svo að hún var flutt til Ahoy í Rotterdam, sem er risastór ráðstefnu höll. Umgjörðin er öll orðin miklu flottari en við höfðum vanist í Den Haag og hélt vel utan um allan þennan fjölda af fólki sem kemur (23,000 manns á dag).
Á föstudeginum mættum við snemma og sóttum miðana með Edda. Kíktum fyrst á Amos Lee, en hann heillaði okkur ekki þannig að við skoðuðum Charles Tolliver big band þar sem hljómsveitin var góð en sólistinn alveg úti að aka. Eftir góðan mat, eins og er alltaf á North Sea, náðum við í rassinn á Joe Zawinul, sem er orðinn gamall, en fengum geggjuð sæti fyrir Katie Melua sem fylgdi á eftir. Hennar tónleikar voru ansi góðir og það kom mér á óvart. Eftir smá skvettu af Al Green horfðum við á Wynton Marsalis og Lincoln Center Jazz Orkester. Þeir voru geggjaðir, alveg hreint frábærir, en þar sem við vorum ekki búin að sofa hjónin í sólahring gat ég ekki haldið mér vakandi yfir tónleikunum. Þrátt fyrir mikla þreytu hittum við Kjartan og Gunndísi í öl fyrir svefninn......sem breyttist í nokkra öl og mikið stuð.
Laugardagurinn fór í að hitta Vigdísi, Baldur og Roul. Við skelltum okkur aftur á hátíðina um áttaleitið og skoðuðum fyrst Joe Bonamassa, sem er massagóður gítarleikari. Eftir smá sálartónlist hjá The Soul Seekers fundum við algjöran snilling, Raul Midón. Hann er stórgóður og geggjaður "live". Þið tékkið á honum! India.Arie olli okkur ekki vonbrigðum frekar en síðast þegar við sáum hana og Maceo Parker var alveg eins kúl og við áttum að venjast. Við gerðum reyndar ekki ráð fyrir því að trompetleikarinn sem við sáum með honum síðast væri enn á lífi, sökum aldurs, en hann var enn með honum og alveg jafn klikkaðslega góður. Þetta kvöld var farið snemma að hátta, klukkan hálf þrjú!
Sunnudagurinn reis fagur og það besta við hann var að hátíðin byrjar fyrr, eða um hálf fimm. Fyrsta hljómsveitin sem við kíktum á var Africando, snillingar í Afrokuban salsa tónlist, allur salurinn iðaði af ánægju! Amy Winehouse mætti ekki á svæðið, sem kom engum á óvart, en í staðinn var Marcus Miller með djamm-sessjon og bauð til sín Candy Dulfer og Roy Hargrove(sem var nú bara eitthvað stoned og sökkaði feitan). Það var enginn leiður yfir því að Amy mætti ekki eftir að þeir tónleikar voru búnir. Marcus Miller er auðvitað bara bassasnillingur og hann var með rosalega gott fólk með sér. Þegar DJ-inn hans hóf lagið sem var tileinkað Amy greyinu, sprakk salurinn. Hann var búinn að mixa lagið hennar, Rehab, og voru allir hljóðfæraleikararnir að djamma með. Tær snilld!!! Candy Dulfer kom svo á eftir með sitt band og vini en eftir smá af henni skelltum við okkur á röltið og sáum Yasmin Levy, sem var mjög flott og góð söngkona. Þá var tími til þess að halda heim og kveðja NSJ þetta árið. Vonandi sjáumst við sem fyrst aftur....
Síðustu daga ferðarinnar fóru í það að hitta vinina úti sem mest, kíkja á Keerkring og kaupa nótur. Það var alveg yndislegt að koma aftur og ég vona að það gerist aftur sem fyrst!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home